Framboð og eftirspurn skulda

Flestir þekkja lögmálið um framboð og eftirspurn, sem er í stuttu máli þannig að á meðan eftirspurn er eftir vöru eða þjónustu er hægt að selja hana, og ef ekki er hægt að anna eftirspurninni eykst varan eða þjónustan að verðgildi, en ef offramboð er á einhverri vöru eða þjónustu, þá hættir hún að seljast og fellur í verði. Skuldir eru eins og hver önnur vara sem gengur kaupum og sölum.

Nú er svo komið fyrir heimsbyggðinni að offramboð hefur verið um langa hríð á skuldum á fjármálamörkuðum heimsins og er Ísland engin undantekning eða eftirbátur annarra ríkja hvað það varðar, í þannig árferði er eðlilegt að skuldir sem offramboð er á falli í verði, þar sem fjármálaspekúlantar og fjármálafyrirtæki hafa offjárfest í skuldum og ættu nú að tapa gríðarlegum fjárhæðum á lélegum fjármálaákvörðunum sínum, en í stað þess að raunvirði skuldanna minnki í samræmi við lögmálið um framboð og eftirspurn, þá stíga nú ríkisstjórnir  og yfirvöld allra landa fram og sameinast í því verkefni að bjarga auðmönnum og fjármálafyrirtækjum heimsins, ekkert verkefni er eins brýnt að þeirra mati, hungur farsóttir, náttúruhamfarir og hin raunverulegu vandamál heimsins hafa ekki kallað fram þvílíkan og annan eins samtakamátt og þetta svokallaða vandamál, þ.e. sá ægilegi veruleiki að skuldir lækki í verði og fjármálafyrirtækin missi spón úr aski sínum og græði ekki eins mikið og þeir ætluðu sér á vitleysisgangi sínum.

Hér á landi hækka skuldir allra landsmanna daglega, ríkisstjórnin bætir í með því að hækka verð á áfengi og tóbaki svo vísitala neysluverðs hækki og þar með verðtryggingin, seðlabankinn heldur vöxtum háum, allt stjórnkerfið stendur sameinað í að hækka skuldir allra landsmanna.

Húsnæðisverð hefur lítið lækkað þrátt fyrir nánast alkul fasteignamarkaðarins, kannski vegna þess að í flestum tilvikum eru skuldirnar bundar veði í fasteignum, bílum eða fyrirtækjum.

Það er búið að skapa falshagkerfi sem er í gíslingu banka og fjárglæframanna, allt er stopp, fólk er hætt eða hefur stórminnkað að kaupa, selja, ferðast, giftast og skilja, það gerir sem minnst, varla að það tími að deyja, og guð hjálpi þeim sem veikist, nú á tímum niðurskurðar, og ef það er svo frekt, þá er bara hægt að veikjast í Reykjavík.

Þetta er enn ein birtingarmynd sýndarveruleika snarbilaðs fjármálakerfis, kerfið virkar nefnilega ekki í reynd, þega reynt er að brjóta og sniðganga grundvallar lögmál þess kerfis um framboð og eftirspurn, afleiðingin er allsherjar skekkja og bjögun á öllum mörkuðum og lífi meginþorra fólks.

Ríkisstjórnin tók við keflinu af bönkunum í að halda skuldaverði himinháu langt umfram raunverulegt markaðsvirði. Er ekki orðið tímabært að stinga á kýlinu, því fólk vill fara að snúa sér að eðlilegu lífi í eðlilegu hagkerfi.

Það eina raunhæfa í stöðunni er almenn  skuldalækkun, gengisfelling á skuldum allra landsmanna, því það vita allir og hafa alltaf vitað að þessir peningar eru ekki til og hafa aldrei verið til, bankarnir blésu út  þessa bólu, og þeir vita það manna best, að hún hefur ekkert innihald, annað en loftið.
 
Ef skuldirnar verða ekki leiðréttar, þá munu skuldarar enfaldlega einn af öðrum hætta að geta eða vilja greiða af stökkbreyttum lánum sínum, sem þýðir þegar upp er staðið að lögmálið um framboð og eftirspurn fer aftur að virka, þegar nógu margar skuldakröfur tapast, þá neyðast bankarnir og stjórnvöld til að horfast í augun við það, að lögmálið um framboð og eftirspurn, lætur ekki að sér hæða jafnvel þó stjórnvöld allra landa sameinist um að reyna brjóta það.

Við skulum minnast þess að þetta er að gerast á heimsvísu, hagkerfi heimsins er í gíslingu fjármálafyrirtækja og spákaupmanna. Þeir gætu þetta ekki nema með dyggri aðstoð stjórnvalda og yfirvalda á hverjum stað.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband