Færsluflokkur: Fjármál

Hæstiréttur og ránslánin

Hæstiréttur kvað upp dóm þann 16. september sl. varðandi vexti á lánum með ólögmætri gengistryggingu. Þessi dómur sýndi glögglega hverjum íslenskt réttarkerfi þjónar.

Dómurinn gekk út á það í stuttu máli að verðlauna fjármögnunarfyrirtækin sem hafa gerst sek um að lokka grandalaust fólk í vel útfærðar fjársvikagildrur. Fjársvikagildrurnar voru kallaðar „lán í erlendri mynt“ og báru vexti gjaldmiðlanna sem lánin voru sögð samanstanda af. (Avant sem nú er komið í þrot var þó búið að hækka vexti á lánum bundin við jen og franka upp í 8-9% og því í engum takti við lága vexti þessara gjaldmiðla.) Lánin voru aftur á móti íslensk krónulán dulbúin sem erlend lán með bindingu við hina ýmsu erlendu gjaldmiðla. Fjármálafyrirtæki sáu síðan sjálf um að fella gengi íslensku krónunnar og hækka þar með lánin um u.þ.b. hundrað prósent, og hafa þau síðastliðin misseri gengið hart að fólki og féflett það eins mikið og þau mögulega gátu.

Þrautpíndir lántakendur hafa horft upp á þessi glæpafyrirtæki fara ránshendi um eigur sínar og lítið getað gert. Það kom þó vonarglæta þegar gengistrygging lána var dæmd ólögmæt í Hæstarétti en sú von dó 16. september sl., þegar Hæstiréttur staðfesti ránsrétt glæpafyrirtækjanna og hysjaði um leið brækurnar upp um lögbrjótanna.

Almenningur sem varð fyrir þjófnaðinum er gert að greiða þjófunum allt að 20% vexti afturvirkt fyrir þýfið sem þjófarnir komust undan með. Það læðist að manni sá grunur að íslenska dómskerfið sé á viðlíka stað og íslenska bankakerfið fyrir hrun, gjörspillt skemmdarbákn sem í raun og veru er ekkert annað en stórhættuleg tifandi tímasprengja sem verður að taka úr sambandi.

Það var einstaklega athyglisvert að sjá viðbrögð svokallaðra vinstri manna og ESB sinna sem fögnuðu dómnum sem var þó þvert á neytendaréttinn sem einmitt kemur frá Evrópu (með EES samningnum) þar sem ESB sinnarnir telja sig helst eiga heima.
Árni Páll úr öfugmælaríkisstjórninni („norrænu velferðarstjórninni“) var meira að segja búinn að undirbúa lagasetningu sem hann nefnir „sanngirnislögin“, sérhönnuð til að ránslánin verði lögleg íslensk lán og komi í stað allra gengistryggðra lána. Enda var niðurstaða Hæstaréttar ákveðin áður en lögmaður skuldarans, uppeldisbróðir Gylfa Magnússonar fyrrverandi viðskiptaráðherra flutti málið fyrir Hæstarétti. Það var heldur ekki að sjá á lögmanninum (uppeldisbróður Gylfa) að hann hafi verið óhress með að tapa þessu stóra máli. Enda var hann það ekki!

Þýðir eitthvað að leita til íslenskra dómstóla, hægri handar gjörspillts fjármálakerfis og siðspilltrar ríkisstjórnar og eftirlitsstofnanna? Það er í raun hlægilegt að sjá hversu „virðulegir“ dómararnir eru og að almenningur í dómssal skuli rísa upp úr sætum sínum þegar dómararnir ganga ákveðnir í röð inn í dómssalinn rétt eins og þeir væru alvöru dómarar. Fullkomlega óviðeigandi og mjög hallærislegt!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband