Framboð og eftirspurn skulda

Flestir þekkja lögmálið um framboð og eftirspurn, sem er í stuttu máli þannig að á meðan eftirspurn er eftir vöru eða þjónustu er hægt að selja hana, og ef ekki er hægt að anna eftirspurninni eykst varan eða þjónustan að verðgildi, en ef offramboð er á einhverri vöru eða þjónustu, þá hættir hún að seljast og fellur í verði. Skuldir eru eins og hver önnur vara sem gengur kaupum og sölum.

Nú er svo komið fyrir heimsbyggðinni að offramboð hefur verið um langa hríð á skuldum á fjármálamörkuðum heimsins og er Ísland engin undantekning eða eftirbátur annarra ríkja hvað það varðar, í þannig árferði er eðlilegt að skuldir sem offramboð er á falli í verði, þar sem fjármálaspekúlantar og fjármálafyrirtæki hafa offjárfest í skuldum og ættu nú að tapa gríðarlegum fjárhæðum á lélegum fjármálaákvörðunum sínum, en í stað þess að raunvirði skuldanna minnki í samræmi við lögmálið um framboð og eftirspurn, þá stíga nú ríkisstjórnir  og yfirvöld allra landa fram og sameinast í því verkefni að bjarga auðmönnum og fjármálafyrirtækjum heimsins, ekkert verkefni er eins brýnt að þeirra mati, hungur farsóttir, náttúruhamfarir og hin raunverulegu vandamál heimsins hafa ekki kallað fram þvílíkan og annan eins samtakamátt og þetta svokallaða vandamál, þ.e. sá ægilegi veruleiki að skuldir lækki í verði og fjármálafyrirtækin missi spón úr aski sínum og græði ekki eins mikið og þeir ætluðu sér á vitleysisgangi sínum.

Hér á landi hækka skuldir allra landsmanna daglega, ríkisstjórnin bætir í með því að hækka verð á áfengi og tóbaki svo vísitala neysluverðs hækki og þar með verðtryggingin, seðlabankinn heldur vöxtum háum, allt stjórnkerfið stendur sameinað í að hækka skuldir allra landsmanna.

Húsnæðisverð hefur lítið lækkað þrátt fyrir nánast alkul fasteignamarkaðarins, kannski vegna þess að í flestum tilvikum eru skuldirnar bundar veði í fasteignum, bílum eða fyrirtækjum.

Það er búið að skapa falshagkerfi sem er í gíslingu banka og fjárglæframanna, allt er stopp, fólk er hætt eða hefur stórminnkað að kaupa, selja, ferðast, giftast og skilja, það gerir sem minnst, varla að það tími að deyja, og guð hjálpi þeim sem veikist, nú á tímum niðurskurðar, og ef það er svo frekt, þá er bara hægt að veikjast í Reykjavík.

Þetta er enn ein birtingarmynd sýndarveruleika snarbilaðs fjármálakerfis, kerfið virkar nefnilega ekki í reynd, þega reynt er að brjóta og sniðganga grundvallar lögmál þess kerfis um framboð og eftirspurn, afleiðingin er allsherjar skekkja og bjögun á öllum mörkuðum og lífi meginþorra fólks.

Ríkisstjórnin tók við keflinu af bönkunum í að halda skuldaverði himinháu langt umfram raunverulegt markaðsvirði. Er ekki orðið tímabært að stinga á kýlinu, því fólk vill fara að snúa sér að eðlilegu lífi í eðlilegu hagkerfi.

Það eina raunhæfa í stöðunni er almenn  skuldalækkun, gengisfelling á skuldum allra landsmanna, því það vita allir og hafa alltaf vitað að þessir peningar eru ekki til og hafa aldrei verið til, bankarnir blésu út  þessa bólu, og þeir vita það manna best, að hún hefur ekkert innihald, annað en loftið.
 
Ef skuldirnar verða ekki leiðréttar, þá munu skuldarar enfaldlega einn af öðrum hætta að geta eða vilja greiða af stökkbreyttum lánum sínum, sem þýðir þegar upp er staðið að lögmálið um framboð og eftirspurn fer aftur að virka, þegar nógu margar skuldakröfur tapast, þá neyðast bankarnir og stjórnvöld til að horfast í augun við það, að lögmálið um framboð og eftirspurn, lætur ekki að sér hæða jafnvel þó stjórnvöld allra landa sameinist um að reyna brjóta það.

Við skulum minnast þess að þetta er að gerast á heimsvísu, hagkerfi heimsins er í gíslingu fjármálafyrirtækja og spákaupmanna. Þeir gætu þetta ekki nema með dyggri aðstoð stjórnvalda og yfirvalda á hverjum stað.


Hæstiréttur og ránslánin

Hæstiréttur kvað upp dóm þann 16. september sl. varðandi vexti á lánum með ólögmætri gengistryggingu. Þessi dómur sýndi glögglega hverjum íslenskt réttarkerfi þjónar.

Dómurinn gekk út á það í stuttu máli að verðlauna fjármögnunarfyrirtækin sem hafa gerst sek um að lokka grandalaust fólk í vel útfærðar fjársvikagildrur. Fjársvikagildrurnar voru kallaðar „lán í erlendri mynt“ og báru vexti gjaldmiðlanna sem lánin voru sögð samanstanda af. (Avant sem nú er komið í þrot var þó búið að hækka vexti á lánum bundin við jen og franka upp í 8-9% og því í engum takti við lága vexti þessara gjaldmiðla.) Lánin voru aftur á móti íslensk krónulán dulbúin sem erlend lán með bindingu við hina ýmsu erlendu gjaldmiðla. Fjármálafyrirtæki sáu síðan sjálf um að fella gengi íslensku krónunnar og hækka þar með lánin um u.þ.b. hundrað prósent, og hafa þau síðastliðin misseri gengið hart að fólki og féflett það eins mikið og þau mögulega gátu.

Þrautpíndir lántakendur hafa horft upp á þessi glæpafyrirtæki fara ránshendi um eigur sínar og lítið getað gert. Það kom þó vonarglæta þegar gengistrygging lána var dæmd ólögmæt í Hæstarétti en sú von dó 16. september sl., þegar Hæstiréttur staðfesti ránsrétt glæpafyrirtækjanna og hysjaði um leið brækurnar upp um lögbrjótanna.

Almenningur sem varð fyrir þjófnaðinum er gert að greiða þjófunum allt að 20% vexti afturvirkt fyrir þýfið sem þjófarnir komust undan með. Það læðist að manni sá grunur að íslenska dómskerfið sé á viðlíka stað og íslenska bankakerfið fyrir hrun, gjörspillt skemmdarbákn sem í raun og veru er ekkert annað en stórhættuleg tifandi tímasprengja sem verður að taka úr sambandi.

Það var einstaklega athyglisvert að sjá viðbrögð svokallaðra vinstri manna og ESB sinna sem fögnuðu dómnum sem var þó þvert á neytendaréttinn sem einmitt kemur frá Evrópu (með EES samningnum) þar sem ESB sinnarnir telja sig helst eiga heima.
Árni Páll úr öfugmælaríkisstjórninni („norrænu velferðarstjórninni“) var meira að segja búinn að undirbúa lagasetningu sem hann nefnir „sanngirnislögin“, sérhönnuð til að ránslánin verði lögleg íslensk lán og komi í stað allra gengistryggðra lána. Enda var niðurstaða Hæstaréttar ákveðin áður en lögmaður skuldarans, uppeldisbróðir Gylfa Magnússonar fyrrverandi viðskiptaráðherra flutti málið fyrir Hæstarétti. Það var heldur ekki að sjá á lögmanninum (uppeldisbróður Gylfa) að hann hafi verið óhress með að tapa þessu stóra máli. Enda var hann það ekki!

Þýðir eitthvað að leita til íslenskra dómstóla, hægri handar gjörspillts fjármálakerfis og siðspilltrar ríkisstjórnar og eftirlitsstofnanna? Það er í raun hlægilegt að sjá hversu „virðulegir“ dómararnir eru og að almenningur í dómssal skuli rísa upp úr sætum sínum þegar dómararnir ganga ákveðnir í röð inn í dómssalinn rétt eins og þeir væru alvöru dómarar. Fullkomlega óviðeigandi og mjög hallærislegt!

Ránsréttur – svar til eiginmanns dómarans

Brynjar Nielsson hæstarréttarlögmaður fullyrðir í grein sinni, “Dómarinn, heilbrigðisráðherrann og eiginmenn þeirra” að ég fari með rangt mál í grein minni Ránsríkisstjórnin, þar sem ég segi að það séu hagsmunatengsl, venslatengsl og pólitísk tengsl á milli þessara aðila. Var ég þar að fjalla um dómsmál sem eiginkona Brynjars felldi í héraðsdómi 23. júlí sl. í máli Lýsingar gegn skuldara myntkörfuláns.

Brynjar segir að hann hafi ekki haft tekjur af því að innheimta lán með ólöglegri gengistryggingu (en hefur þó rekið mál fyrir SP-fjármögnun) og að hann starfi ekki á stofunni Lagastoð heldur sé þar aðeins leigjandi. Á heimasíðu Lagastoðar er Brynjar þó skráður samstarfsaðili og er að finna undir liðnum Starfsfólk á www.lagastod.is og hefur netfangið brynjar@lagastod.is. Auk þess hefur Brynjar sama faxnúmer (581-1175) og Sigurmar K. Albertsson hjá Lagastoð sem stefndi inn umræddu dómsmáli f.h. Lýsingar.

Lögmannsstofan sem Brynjar er samstarfasaðili hjá hefur því haft töluverðar tekjur af innheimtu ólögmætra lána þó að Brynjar sjálfur hafi kannski ekki innheimt þær skuldir sjálfur eins og starfsfélagi hans Sigurmar og eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur ráðherra.

Rök dómarans í umræddu dómsmáli eru þar að auki eins og lögfræðiálit eiginmans hennar, Brynjars, sem birtist á ruv.is 26.júní sl., að „lántakendur gengistryggðra lána hafi í raun og veru samið um verðtryggingu og þó sú verðtrygging hafi verið dæmd ólögleg þá útiloki það ekki aðra verðtryggingu á lánunum”. Dómarinn segir í dómsorði það vera: „ljóst að aðilar hafa við gerð hans (innsk samningsins) tekið mið af því að lánið yrði verðtryggt með ákveðnum hætti og að jafnframt yrðu greiddir vextir sem tækju mið af umsaminni gengistryggingu sem dæmd hefur verið óheimil.”

Sigurmar K. Albertsson sem hefur stefnt fjölda skuldara f.h. Lýsingar og SP fjármögnunar felldi niður mörg mál sem komin voru inn til dómstóla þegar Hæstiréttur kvað upp sinn dóm, en valdi þetta tiltekna mál til að stefna inn að nýju sem fékk flýtimeðferð fyrir dómstólum. Niðurstaða dómarans var síðan alveg eins og tilmælin frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands sem gefin voru út í lok júní sl., þ.e. að lánið skyldi bera óverðtryggða vexti SÍ.

Dómarinn var í fyrsta lagi vanhæfur til að dæma í þessu máli, til þess voru tengslin við lögmannstofuna Lagastoð of mikil, rök dómarans voru í öðru lagi eins og álit eiginmannsins og niðurstaðan var í þriðja lagi eins og stjórnvöld vonuðust til. Starfsfélagi verjandans í málinu var þar að auki Árni Helgason sonur Helga Bernódussonar skrifstofustjóra Alþingis. Hvers vegna varð einmitt þetta mál fyrir valinu til að „eyða réttaróvissu”?

Að lokum vil ég kasta fram þeirri spurningu til lesenda hvort þeim finnist eðlilegt í svona mikilvægu máli sem snertir þorra þjóðarinnar, að svo mikil tengsl skuli vera milli lögmanns sækjanda og dómarans. Vekur það ekki upp spurningar um hlutleysi dómarans?


Ránsríkisstjórnin

Síðastliðin föstudag féll ákaflega sérstakur dómur í héraðsdómi í máli Lýsingar gegn skuldara, þessi dómur var sérstakur fyrir margra hluta sakir, og þá sérstaklega fyrir þær sakir að einn dómarinn er giftur manni sem hafði tekjur af því að innheimta stökkbreyttan höfuðstól gengistryggðra lána, og auðvitað vill hún ekki missa spón úr aski sínum, auk þess er sækjandinn í málinu starfsfélagi mannsins hennar, og svo vill líka þannig til að starfsfélagi mannsins hennar sem er sækjandi í málinu er giftur Álfheiði Ingadóttur sem er ráðherra í ríkisstjórn og náinn samstarfsmaður Steingríms J fjármálaráðherra, þannig að um er að ræða venslatengsl, fjárhagsleg og pólitísk tengsl og hagsmuni, sem varða dómarann beint.

Það er samt annað í þessu máli sem er enn athyglisverðara, það er að í þessu máli opinberast meginstefna og markmið núverandi ríkisstjórnar mjög skýrt, því þó að þessi ríkisstjórn viðist vera lin og óstarfhæf þá er hún í raun og veru sannkölluð starfsstjórn, sem vinnur að því dag og nótt að gera tvennt, í fyrsta lagi að auka skuldir og álögur á almenning,  helst þanning að að hann geti ekki staðið í skilum, og í öðru lagi að afhenda kröfuna erlendum aðilum.

Þetta mynstur er endurtekið allstaðar í þjóðfélaginu, munum t.d. hvernig ránsríkisstjórnin tók á ICESAVE, þar eru þessi tvö meginstef ránsríkistjórnarinnar að verki, að skuldsetja almenning með skuldum sem ekki eru hans og hann getur ekki borgað, og að afhenda kröfuna erlendum aðilum.

Til þess að núverandi ríkisstjórn geti haldið áfram ætlunarverki sínu þ.e. að skuldsetja þjóðina þá verður hún að geta haldið áfram að innheimta stökkbreyttan höfuðstól gengistryggðra lána. Sjávarúvegurinn, landbúnaðurinn, heimilin og flest fyrirtæki í landinu eru með stökkbreytt myntkörfulán, og nú er það bara tímaspursmál hvenær erlendir aðilar eignast það allt, því ránsríkisstjórnin er að afhenda og er í mörgum tilfellum búin að afhenda kröfuna á stökkbreyttu ólöglegu lánunum í hendurnar á erlendum aðilum.

Ránsríkisstjórnin er byrjuð að afhenda auðlindirnar og hún ætlar sér að sitja áfram þangað til að hún er búin að stela öllu sem hægt er að stela af þessari þjóð. Þá er fullveldið bara eftir og hún mun afhenda ESB það á silfurfati með þeim orðum að hér sé hvort eð er allt í kaldakoli og engar auðlindir né sjálfsvirðing eftir í eigu þjóðarinnar.

Þetta eru stefnumál og starf þessarra ránsríkisstjórnar. Ef einhver er í vafa þá bið ég viðkomandi að skoða verkin þeirra, það er svo reglulegt munstur að það er ekki hægt að loka augunum fyrir því.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband